Erlent

Ráðist á þorp í Sómalíu

Bandaríkjaher gerði í nótt loftárásir á þorp í Sómalíu þar sem talið var að liðsmenn al-Qaed hryðjuverkasamtakanna hefðust við. Vitni segja fjölmarga almenna borgara hafa fallið í árásunum. Bandaríkjamenn hafa ekki viljað tjá sig um aðgerðir næturinnar.

Íslamskir uppreisnarmenn, sem hefur verið líkt við Talíbana og Bandaríkjamenn telja hafa tengsl við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin, náðu stórum hluta Sómalíu á sitt vald í fyrra. Skömmu fyrir jól réðust eþíópískar hersveitir inn í landið með stuðningi sómalískra stjórnvalda og hröktu þá á flótta.

Það var svo í morgun sem fréttir bárust af árás á þorpið Badel þar sem talið var að hryðjuverkamenn úr röðum al-Qaeda hefðust við. Bandarískar hersveitir sendu í nótt af stað þungvopnaða, fjögurra hreyfla herflugvél til árása. Vél sem þessi eirir engu á stóru svæði þegar vopnum hennar er beytt.

Fulltrúar sómalískra stjórnvalda segja marga hafa fallið. Bandaríkjamenn hafa ekki tjáð sig um árás næturinnar en búist var við tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu síðar í dag.

Árásin í nótt er fyrsta opinbera hernaðaraðgerð Bandaríkjamanna í Sómalíu frá árinu 1994 þegar átján bandarískir hermenn féllu í höfuðborginni, Mogadishu.

Þorpið sem ráðist var á í nótt er nærri landamærunum að Kenýa og sagt síðasta vígi uppreisnarmanna í Sómalíu. Í gær var greint frá því að eþíópískar og sómalískar hersveitir væru nærri því að leggja það undir sig. Ætla má að það reynist auðvelt eftir aðgerðir næturinnar.

Abdullahi Yusuf, forseti Sómalíu, segist styðja aðgerðir Bandaríkjamanna. Þeir hafi rétt til að ráðast gegn hryðjuverkamönnum sem beri ábyrgð á árásum gegn sendiráðum þeirra í Kenýa og Tansaníu. Grunur leikur á að einhverjir þeirra sem fallið hafi í nótt hafi átt þátt í þeim árásum árið 1998 sem kostuðu 250 manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×