Erlent

Hlýjasta ár sögunnar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir á morgun umfangsmiklar tillögur um framtíðarskipan orkumála innan sambandsins sem verður liður í baráttuáætlun sambandsins gegn loftslagsbreytingum. Því er spáð að árið 2007 verði það hlýjasta í sögunni.

Það eru breskir veðurfræðingar sem spá því að nýhafið ár verði það heitasta í heiminum frá því mælingar hófust. Þar með verði met frá því 1998 slegið. Veðurfyrirbrigðið El Nino á Kyrrahafssvæðinu muni valda því auk þess sem losun gróðurhúsalofttegunda hafi þar töluverð áhrif.

Spáð er að meðalhitinn á yfirborði jarðar á þessu ári verði 0,54 gráðum meiri en langtímameðalspá upp á 14 gráðu hita. Metið fyrir átta arum var 0,52 gráður. 60% líkur eru taldar á því að þessi spá gangi eftir.

Fjölmargir sérfræðingar telja þetta enn eina áminninguna til ráðamanna um að taka þurfi á loftslagsmálun og losun gróðurhúsalofttegunda fyrr en síðar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið vinna tillögur um framtíðarskipan orkumála innan sambandsins sem kynntar verða á morgun. Byggt verður á þeim þegar hugað verður að aðgerðum eftir að Kyoto-bókunin um losun gróðurhúsalofttegunda rennur út 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×