Innlent

Bankarnir að undirbúa að yfirgefa krónuna?

MYND/Gunnar

Á síðasta ári hafa stærstu bankar landsins sankað að sér erlendri mynt. Þessa breytingu má að hluta til rekja til þess að bankarnir hafi verið að stækka við á erlendri grund og þess vegna sé æ stærri hluti af efnahagsreikningi þeirra í erlendri mynt. Þetta gæti hins vegar valdið því að með lækkandi gengi krónunnar lækki eiginfjárhlutfall bankanna. Bankarnir hafa því tekið upp jákvæðan gjaldeyrissöfnuð til þess að verja eiginfjárhlutfall sitt ef krónan lækkar.

Á sama tíma hafa erlendar bankastofnanir verið að auka krónueign sína og þarf engann að undra því vaxtamunur við útlönd er í hæstu hæðum um þessar mundir, eða í kringum 11%.

Reglur um gjaldeyrisjöfnuð bankanna eru settar af Seðlabankanum en þar er kveðið á um að heildargjaldeyrisjöfnuður bankanna skuli hvorki vera jákvæður eða neikvæður umfram 30% af eigin fé bankanna. Bankarnir voru fljótir að rjúfa þessi mörk og í apríl á síðasta ári bætti Seðlabankinn inn undanþáguákvæði þar sem veitt var heimild til sérstaks gjaldeyrisjafnaðar utan hins hefðbundna ef vissum skilyrðum væri fullnægt.

Í fréttabréfi greiningardeildar Landsbankans segir enn fremur að erfitt sé að sjá annan tilgang með þessari aukningu á gjaldeyrisforða bankanna en að þeir séu að undirbúa að yfirgefa krónuna sem uppgjörsmynt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×