Innlent

Gerðu vel við sig um jólin

Metsala var í matar- og drykkjarföngum fyrir síðustu jól samkvæmt rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar. Miðað við breytilegt verðlag jókst salan um þrettán og hálft prósent á milli ára.

Íslendingar gerðu vel við sig í mat og drykk í jólamánuðnum og vörðu meira fé til kaupa á veisluföngum nú en í desember í fyrra samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst. Velta í dagvöruverslun var 4,4 prósentum meiri í desember á milli ára ef miðað er við fast verðlag. Ef miðað er við breytilegt verðlag jókst veltan um þrettán og hálft prósent. Sala á áfengi var 5,6 prósentum meiri í desember 2006 og en í sama mánuði árið 2005 og hefur vísitala áfengissölu ekki verið hærri frá því mælingar hófust árið 2001 eða 218 og hálf stig.

Undanfarna mánuði hefur mátt sjá samdrátt á veltu í dagvöruverslun og hækkanir hafa verið litlar á milli ára og segir í tilkynningu, frá Rannsóknarsetrinu, að það sé skýrt með minnkandi þenslu og því að einkaneysla hafi dregist saman. Búist er við að sú þróun haldi áfram þrátt fyrir að landsmenn hafi gert vel við sig um jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×