Erlent

Boða iðnbyltingu

Evrópusambandið boðar iðnbyltingu í nýrri áætlun um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Framkvæmdastjórn sambandsins vill að aðildarríkin minnki útblástur gróðurhúsalofttegunda um tuttugu prósent fyrir 2020. Evrópa verði að taka forystuna í að þróa efnahag sem byggi síður á kolefnum.

Það var Jose Manuel Barroso, forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem kynnti tillögurnar, sem ríkisstjórnir sambandsins þurfa að samþykkja. Þær verða ræddar á leiðtogafundi í mars.

Barroso benti á að hlýnað hefði í heiminum á síðasta rúma áratug og hefðu mörg hitamet verið slegin á þeim tíma. Samræma þurfi viðbrögð sambandsríkjanna við loftslagsbreytingum.

Barroso sagðist þegar hafa rætt stöðu mála við Bush Bandaríkjaforseta og fulltrúa á Bandaríkjaþingi. Nauðsynlegt sé að hafa Bandaríkjamenn með í ráðum, þeir mengi mest.

Barroso tók orkudeilu Rússa og Hvít-Rússa og áhrif hennar á olíuflutning til ESB ríkja sem dæmi um að treysta þurfi okrubyrgðir sambandsríkja.

Síðdegis í dag bárust svo fréttir af því að útlit væri fyrir því að olíudeilan væri að leysast. Hvítrússar hefðu aflagt flutningsgjöld á olíu frá Rússlandi sem gæti orðið til þess að Rússar opni aftur fyrir streymi olíu í gegnum þær leiðslur sem liggi um Hvíta-Rússland. Það flæki þó málið að Rússar hafa krafið Hvítrússa um að skila um áttatíu þúsund tunnum af olíu sem þeir segja þá hafa stolið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×