Erlent

Léku eftir aftöku Saddams

Litlu munaði að börn í bænum Gausdal í Noregi hengdu vin sinn á dögunum. Vinahópurinn hafði ákveðið að leika eftir aftöku Saddams Hússein, Íraksforseta, og fékk einn úr hópnum hlutverk einræðisherrans.

Ekki hefur fengist fullnægjandi skýring á því afhverju börnin tóku upp þennan óhugnarlega leik. En hvað sem því líður kviknaði sú hugmynd meðal barnanna að sviðsetja aftöku Hússeins.

Faðir eins barnsins segir börnin hafa fundið reipi, sett snöru um háls eins drengs úr hópnum sem síðan hafi farið upp á stól. Síðan hafi eldri vinir drengsins híft hann upp með snöru um hálsinn. Hann segir það mikið lán að drengurinn hafi náð niður á stólinn með fótunum aftur og vinirnir sleppt reipinu. Drengurinn slapp lifandi frá þessum háskaleik en er með mikið rautt sár um hálsinn. Læknir í Gausdal segir þetta alvarlegt mál. Tilviljun ein hafi ráðið því að ekki hafi farið verr.

Foreldrar í bænum eru felmtri slegnir vegna þessa. Ein móðir segir sorg hafa verið fyrstu viðbrögð sín þar sem illa hefði geta farið. Faðir eins drengs í hópnum hvetur alla foreldra til að hafa nánar gætur á börnum sínum og reyna að skýra fyrir þeim að leikir sem þessi geti verið lífshættulegir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×