Erlent

Umtalsverð fjölgun hermanna í Írak

Demókratar á Bandaríkjaþingi segjast ætla að koma í veg fyrir að fleiri hermenn verði sendir til Íraks með því að neita ríkisstjórninni um fjárveitingar. George Bush greindi í gær frá þeirri ákvörðun sinni að tuttugu þúsund manna aukaherlið færi á næstunni til landsins til að binda enda á vargöldina þar.

Bush flutti sjónvarpsávarp í gær þar sem hann kynnti breytingar ríkisstjórnar sinnar á stefnunni í Írak með það fyrir augum að kveða niður uppreisnina í landinu sem hefur kostað svo mörg mannslíf. Áður en að sjálfri kynningunni kom viðurkenndi hann að ástandið í Írak væri afar slæmt og kvaðst hann bera fulla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hefðu verið í stríðsrekstrinum. Því næst greindi hann frá því að á næstu vikum yrði fjölgað í herliði Bandaríkjamanna í landinu um 21.500 manns en þar eru fyrir 132.000 hermenn. Stærstur hluti viðbótarliðsins verður staðsettur í Bagdad en fimmtungur þess fer til hins róstusama Anbar-héraðs þar sem uppreisn súnnía hefur verið hvað áköfust. Þessu til viðbótar ætlar svo Bandaríkjastjórn að veita jafnvirði 72 milljarða króna í uppbyggingar og hjálparstarf og kalla nágranna í Íran og Sýrlandi til mun ríkari ábyrgðar en hingað til.

Demókratar gagnrýna þessar tillögur harðlega og benda á að margar þeirra séu þvert á ráðleggingar ráðgjafarnefndar þingsins sem skilaði tillögum sínum í desemberbyrjun. Dagblaðið Washington Post greinir frá því í dag að demókratar í fulltrúadeildinni hyggist neita ríkisstjórninni um fjárveitingar til þessara auknu umsvifa hersins í Írak nema að hún skilgreini rækilega hvernig hún ætli að ná markmiðum sínum þar. Þá ætla flokksbræður þeirra í öldungadeildinni að reyna að fá ályktun samþykkta þar sem stefnu forsetans í Írak verður mótmælt kröftuglega.

Bandarískar hersveitir réðust inn í ræðismannsskrifstofu Írana í borginni Irbil í Norður-Írak í morgun og tóku fimm starfsmenn hennar fasta. Frá þessu greindi íranska ríkisfréttastofan IRNA nú fyrir stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×