Innlent

Þriðjungur heyrnarlausra beittur kynferðislegu ofbeldi

Í nýrri könnun sem var gerð á meðal heyrnarlausra á Íslandi sagðist þriðjungur svarenda hafa verið beittur kynferðislegu ofbeldi. Eru þetta að minnsta kosti 30 einstaklingar. Félag heyrnarlausra lét gera könnunina með stuðningi félagsmálaráðuneytisins en Ráðgjöf og greining annaðist gerð hennar.

Spurningalisti var sendur til 160 heyrnarlausra. Um 56 prósent svöruðu og þriðjungur af þeim kvaðst hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Að sögn Berglindar Stefánsdóttur, fyrrverandi formanns félagsins, sem hefur haft umsjón með þessu verkefni, var tilefni könnunarinnar tveir dómar, sem gengið hafa vegna kynferðisbrota gegn heyrnarlausum. Í öðru tilvikinu var um að ræða starfsmann Vesturhlíðarskóla, sem varð uppvís að því að misnota fimm heyrnarlausar stúlkur. Í hinu tilvikinu var um að ræða heyrnarlausan föður sem misnotað hafði börn sín. Fram kom á þeim tíma að hann hafði sjálfur verið misnotaður kynferðislega á sínum yngri árum.

Spurð hvort um sé að ræða einhvern tiltekinn aldurshóp sem orðið hafi fyrir kynferðislegu ofbeldi segir Breglind að flest atvikin hafi átt sér stað þegar fólkið var á grunnskólaaldri. „Þetta gerist bæði í Vesturhlíðarskóla og gamla Heyrnleysingaskólanum, í skólaumhverfinu" segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×