Innlent

Góð vetrarfærð og greiðfært í borginni

Góð vetrarfærð er á landinu og greiðfært um höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir snjóinn sem kyngdi niður í nótt.

Hjá Framkvæmdasviði borgarinnar fengust þær upplýsingar að þokkalega hefði gengið að ryðja götur en hann gekk á með töluverðum éljum í nótt og morgun. Upp undir fimmtíu snjóruðningsbílar, traktorsgröfur og fleiri vélar eru á götum borgarinnar að skafa vegi og gangstéttar. Menn frá Vegagerðinni hafa verið við mokstur síðan í býtið og verða að í dag eftir því sem þörf er á.

Þá er hálka og éljagangur á Reykjanesbraut og öllum Suðurnesjunum, hálka og éljagangur á Hellisheiði og í Þrengslum, og víðast hvar á Suðurlandi er hálka og snjóþekja. Á Vesturlandi eru hálkublettir og snjóþekja víðast hvar. Hálka og éljagangur er á Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum er hálka og éljagangur . Hálka og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. Ekki er gert ráð fyrir að opna þær neitt á næstunni. Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir. Hálka og skafrenningur er á Hólasandi. Lágheiði er ófær. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir, en ófært er yfir Öxi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×