Leikstjórnandinn magnaði Jason Kidd hjá New Jersey Nets lætur erfiðan hjónaskilnað ekki hafa áhrif á leik sinn með liðinu og í nótt fór hann á kostum þegar Nets lagði Chicago Bulls á útivelli í NBA deildinni. Þá var stórleikur í Phoenix þar sem heimamenn tóku á móti Cleveland, en sá leikur verður sýndur á Sýn í kvöld.
New Jersey vann afar mikilvægan útisigur á Chicago 86-83 þar sem Kidd skoraði 23 stig, hirti 14 fráköst og gaf 13 stoðsendingar. Argentínumaðurinn Andres Nocioni skoraði 28 stig fyrir Chicago.
Þá var frábær leikur á dagskrá í Phoenix þar sem heimamenn unnu sannfærandi sigur á Cleveland Cavaliers 109-90. LeBron James skoraði 34 stig fyrir Cleveland en Shawn Marion var stigahæstur hjá Phoenix með 19 stig en Steve Nash var með 21 stoðsendingu í leiknum.