Innlent

Grundarfjörður fullur af síld

Grundarfjörður er fullur af síld og náði Krossey frá Hornafirði að fylla skipið í tveimur köstum þar í dag en síld hefur ekki verið veidd í firðinum í tugi ára. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar rannsaka hvort það var þetta mikla magn síldar sem varð til þess að tuttugu tonn af eldisþorski drapst í firðinum.

Unnið er að því að rannsaka fiskdauða í þorskeldi fyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar í Grunarfirði. Fjörðurinn er fullur af síld og er talið líklegt að súrefnisskotur vegna síldarinnar hafi valdið dauða þrosksins þó það liggi ekki fyrir.

Krossey SF 20 var fljót í Grundarfjörð eftir að fregnir bárust af síldinni þar enda í leit að síld. Í fyrsta kastinu fengust nærri tvö hundruð tonn. Í örðu kastinu fengust á milli 300 og 350 tonn og átti Sigurður Bjarnason skipstjóri von á því að það dygði til að fylla skipið. Þegar dælt hefði verið úr nótinni sagði hann stefnuna vera setta á Hornafjörð þar landa á síldinni. Hann sagði lítið eftir af síldarkvótanum og átti því von á að fara á loðnu í næsta túr. Sigurður segir óvenjulegt að síld finnist í firðinum.

Runólfur Guðmundsson, einn eigenda fyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar, varð var við fiskdauðann þegar ekkert líf var að finna í kvíunum þegar farið var að huga að slátrun þorsksins.

Og tapið er mikið bæði vegna fisksins sem drapst og vegna vinnu og búnaðar sem lagt hefur verið í verkefnið sem hefur ekki verið sérlega arðbært og því óvíst hvort framhald verði á því.

Og Runólfur óttast að fjörðurinn verði lengi að jafna sig. Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar komu til að rannsaka ástæður fisksdauðans í dag og söfnuðu sjávarsýnum.

Starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar tókst ekki að klára að safna sýnum í dag þar sem veður versnaði seinnipartinn en því verður fram haldið við fyrsta tækifæri.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×