Innlent

Tröllasögur um hátt leiguverð skaða markaðinn

Tröllasögur um hátt leiguverð skaða leigumarkaðinn segir formaður Húseigendafélagsins.

Eflaust hafa margir hrokkið í kút yfir himinhárri leigu sem verið er að rukka samkvæmt fréttum okkar í gær. Fram kom að leiga færi í sumum tilvikum upp í allt að 6000 krónur á fermetrann og nefnd voru dæmi um 110.000 króna leigu fyrir 46 fermetra og 11 fermetra herbergi á 65.000 krónur. Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins segir þessa leigu fjarri þeim raunveruleika sem hann þekkir. "Þetta eru tröllasögur. Í þau 30 ár sem ég hef verið að basla í þessum bisness þá hafa komið 1-2 á ári tröllasögur um háa húsaleigu sem eru alhæfingar út frá einstaka háum og ljótum dæmum."

Húseigendafélagið gerir um 20 leigusamninga á mánuði, segir Sigurður og á lista yfir á annan tug samninga sem félagið hefur gert fyrir sína félagsmenn á síðustu mánuðum blasa við alltönnur verð en nefnd voru í gær. Flestar íbúðirnar eru leigðar á um 1000-1500 krónur fermetrann, meðal annars 87 fermetra íbúð á 128.00 krónur á mánuði, 114 fermetra á 135 þúsund krónur og 80 fermetra íbúð á 100 þúsund krónur. Hæsta fermetraleigan hljóðar upp á 2667 krónur, um helmingi lægri leiga en sú dýrasta sem nefnd hefur verið. Og lægsta fermetraleigan var einn tíundi, eða 688 krónur. "Svona tröllasögur eru hættulegar og skaða leigumarkaðinn í heild sinni, skapa óróa og leiða til hækkunar á leigu í einhverjum tilvikum því sumir húseigendur vilja þá hækka leiguna og það skaðar leigjendur," segir Sigurður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×