Innlent

Landspítalinn lifir ekki af biðina eftir nýju húsi

Læknar efast um að Landspítalinn lifi af biðina eftir nýju sjúkrahúsi nema fundið verði bráðabirgðahúsnæði. Þeir vilja að ríkið kaupi eða leigi gömlu Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Aðstaðan núna, sé sjúklingum ekki boðleg.

Læknaráð Landspítala háskólasjúkrahúss ályktaði í gær um alvarlegan húsnæðisvanda sjúkrahússins og skorar á heilbrigðisráðuneytið að láta þegar í stað fara fram athugun á því hvort létta megi vandann með því að kaupa eða leigja Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg sem ríki og Reykjavíkurborg áttu þar til fyrir rúmu ári þegar hún var seld á 980 milljónir króna vegna þess að menn gátu ekki komið sér saman um hvor ætti að kaupa hlut hins. Húsið er nú á sölu á 1050 milljónir. Jóhann Heiðar Jóhannsson bar tillöguna um Barónsstíginn upp á fundi læknaráðs í gær. Hann segir húsið gott og nálægt Landspítalanum. Spítalann vantar pláss undir rannsóknir, dag- og göngudeildir, sem gætu flust á Barónsstíginn og þar með losnaði rými undir legudeildir á Landspítalanum. Eins og allir viti þurfi sjúklingar að liggja á göngum og það sé ekki boðlegt. Hann efast um að Landspítalinn lifi af biðina eftir nýju sjúkrahúsi nema fundið verði bráðabrigðarhúsnæði. Engu skipti hvort húsnæðið yrði keypt eða leigt enda telji fasteignasalinn að hægt verði að finna fasteignafélag sem sé tilbúið til að kaupa húsið og halda því við, finnist öruggur langtímaleigjandi.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×