Erlent

Herlög í Sómalíu

Þing Sómalíu samþykkti í dag að herlög skyldu gilda í landinu næstu þrjá mánuðina til að tryggja öryggi sómalskra borgara. Óttast er að til átaka komi milli stríðsherra í landinu og því er gripið til þessa ráðs. Til harðra átaka hefur komið frá því að eþíópískar og sómalskar hersveitir hröktu íslamska uppreisnarmenn á flótta í síðasta mánuði.

Átta féllu og sex særðust þegar liðsmenn tveggja stríðsherra börðust um ræktunarland og búgripi norð-vestur af höfuðborginni, Mogadishu, í gær. Vegna þessa funduðu ráðamenn með stríðsherrum í gær og tóku af þeim loforð um að liðsmenn þeirra myndu skrá sig í sómalska herinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×