Fótbolti

Mancini vill flauta tímabilið af

NordicPhotos/GettyImages

Roberto Mancini vill að keppni í ítölsku A-deildinni verði flautuð af og látin hefjast á ný næsta haust á meðan unnið verður að því að koma öryggismálum í lag á Ítalíu. Lið hans Inter er eitt þeirra sem þarf að spila fyrir luktum dyrum um þessar mundir og því vill Mancini að liðið sem er í efsta sæti i dag verið sæmt meistaratitlinum og mótið flautað af.

Mancini er ekki alveg hlutlaus í málinu, því lið hans Inter er í langefsta sæti í deildinni og vann um helgina 16. deildarleikinn í röð sem er met. Inter fékk ítalska meistaratitilinn á silfurfati á síðustu leiktíð eftir knattspyrnuskandalinn þar sem meistaratignin var tekin af Juventus.

"Það er bull að spila leikina án stuðningsmanna og því held ég að menn ættu heldur að flauta keppni af og afhenda efsta liðinu titilinn," sagði Mancini, en eflaust má deila um þann hróður sem hlýst af því að vinna tvo meistaratitla í röð með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×