Phil Mickelson verður ekki á meðal keppenda á Zurich Classic of New Orleans mótinu um helgina en hann verður sannarlega með í huganum. Phil og Amy Mickelson góðgerðarsjóðurinn mun gefa þriðja árið í röð peningaupphæð til uppbyggingarstarfsemi á svæðinu eftir hörmulegar afleiðingar fellibyljarins Katrina, alls 250.000 Bandaríkjadali, um 17 milljónir íslenskra króna.
„Við vitum að uppbygging í New Orleans er verkefni til langs tíma og Amy og ég erum staðráðin í að hjálpa til með þeim hætti sem við höfum gert," sagði hinn góðhjartaði Phil Mickelson.
Þau gáfu fyrstu upphæðina einungis nokkrum dögum eftir að hörmungarnar riðu yfir og fór það í sjóð sem PGA-kylfingarnir Kelly Gibson, Hal Sutton og David Toms stofnuðu. Upphæðin í fyrra rann til Zurich Classic Fore!Kids sjóðsins og var féð notað til uppbyggingar á heimilum. Upphæðinni í ár hefur enn ekki verið ráðstafað en hún mun koma í góðar þarfir.
„Mér þykir það miður að Zurich Classic mótið passar ekki inn í keppnisáætlun mína," sagði Mickelson en hann mun keppa á EDS Byron Nelson meistaramótinu, Vachovia meistaramótinu og Players meistaramótinu á næstu þremur vikum.
„Amy og ég erum þakklát fyrir að geta lagt okkar af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar í New Orleans og erum við stolt af því að eiga þátt í því mikla starfi sem unnið hefur verið af óeigingjörnu fólki."
Frétt af Kylfingur.is