Formúla 1

Raikkönen: Hefði átt að vinna allar keppnirnar

NordicPhotos/GettyImages

Finninn Kimi Raikkönen hjá Ferrari segir að slakur árangur sinn í tímatökum hafi einn komið í veg fyrir að hann sigraði í öllum þeim þremur keppnum sem afstaðnar eru á árinu í Formúlu 1. Finninn er í efsta sæti ökuþóra ásamt heimsmeistaranum Fernando Alonso og nýliðanum Lewis Hamilton.

"Það er fínt að vera með 22 stig það sem af er, en ég hefði geta náð í fullt hús og því er ekki að neita að það eru tímatökurnar sem eru að gera mér erfitt fyrir," sagði Raikkönen, sem náði ráspól í fyrstu keppninni í Ástralíu og sigraði þar - en hefur síðan endað í þriðja sæti bæði í Malasíu og Barein.

"Ég er viss um að við getum betur ef við náum öllu sem hægt er út úr bílnum. Við höfum verið að eiga ágætis keppnir, en bíllinn er enn ekki alveg nógu góður á hringnum og ef maður hefur ekki við andstæðingum sínum á hringnum - getur maður gleymt því að vinna keppnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×