Fimmti kosningafundur Stöðvar 2 hefst laust fyrir klukkan sjö í kvöld þegar oddvitar stjórnmálaflokkanna í Reykjavíkurkjördæmi suður takast á um stefnumál sín.
Hringferð Stöðvar 2 hófst í Stykkishólmi fyrir mánuði og nú er hringurinn um það bil að lokast. Fulltrúar sex framboða verða á fundinum í kvöld en framboðslistar frá Baráttusamtökunum, sjöunda stjórnmálaaflinu sem hyggst bjóða fram á landsvísu, liggja ekki enn fyrir.
Það verða því Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Magnússon og Ómar Ragnarsson sem eiga sviðið í kvöld.
Fundurinn fer fram í salarkynnum Orkuveituhússins og stendur yfir í klukkustund. Glæný skoðanakönnun um fylgi flokkanna verður kynnt í upphafi þáttarins ásamt nýrri könnun um afstöðu kjósenda í Reykjavík til flugvallarins í Vatnsmýri.