Erlent

Moore rannsakaður vegna Kúbuferðar

Bandaríska ríkisstjórnin hefur hafið rannsókn á ferðalagi kvikmyndagerðarmannsins Michael Moore til Kúbu. Hann fór þangað í mars vegna vinnslu á kvikmynd um heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum. Moore, sem gerði meðal annars myndina „Fahrenheit 9/11", en í henni réðst hann gegn stjórn George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, ku hafa brotið lög með ferðalagi sínu.

Bandarískir ríkisborgarar mega ekki fara til Kúbu án sérstakrar heimildar frá stjórnvöldum og þau segja að Moore hafi ferðast án þess að hafa fengið tilskilin leyfi til þess. Talsmaður Moore neitaði að svara spurningum um ferðalag hans. Framleiðandi myndarinnar sagði pólitískar ástæður að baki rannsókninni. Talsmenn stjórnvalda neituðu einnig að segja nokkuð um málið en sögðu að algengt væri að stjórnvöld vildu fá að vita um ferðalög bandarískra ríkisborgara til Kúbu.

Moore hlaut Óskarsverðlaunin árið 2002 fyrir heimildarmynd sína „Bowling for Columbine“ en í henni réðst hann gegn skotvopnamenningu Bandaríkjamanna.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×