Erlent

Verðlaunafé boðið

Guðjón Helgason skrifar
Breskur auðjöfur hefur heitið jafnvirði tæplega hundrað og þrjátíu milljóna króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt lögreglu í Portúgal að þriggja ára breskri stúlku sem hvarf þar fyrir rúmri viku. Leitin að Madelein McCann hefur ekki borið árangur og portúgalska lögreglan hefur dregið úr umfangi hennar.

Það er Stephen Winyard, eigandi heiluræktarstöðvar í Skotlandi, sem býður fjárhæðina. Greint er frá því í breska dagblaðinu Times í dag. Ekki er þó ljóst hvort hægt er að auglýsa verðlaunaféð fyrir almenningi í Portúgal þar sem það er bannað með lögum.

Madeleine hvarf af hótelherbergi í Praia da Luz í Portúgal á fimmtudagskvöldið í síðustu viku þar sem hún svaf ásamt tveggja ára systur og bróður. Foreldrarnir voru fjarstaddir, að snæðingi á veitingastað rétt hjá, en segjast hafa litið með börnum sínum með reglulegu millibili.

Lögregla tilkynnti í gær að leitin að Madelein McCann hefði lítinn árangur borið og hefur verið dregið hefði úr umfangi hennar. Talsmaður lögreglu segir þó enn lagt allt kapp á að finna hana og fjölmargar vísbendingar hafi borist sem verið sé að kanna. Alþjóðlögreglan Interpol tekur þátt í rannsókninni og samkvæmt heimildum breskra blaða beinist rannsóknin ekki lengur að afmörkuðu svæði í Portúgal heldur teygir hún anga sína nú um Evrópu þar sem grunur leiki á að hvarf Madeleine geti tengst alþjóðlegum glæpasamtökum.

Fréttir hafa borist af því að lögegla kanni nú upptökur úr öryggismyndavél á bensínstöð í Praia da Luz þar sem sjáist myndir af konu í fylgd stúlku sem gæti verið Madeleine. Sú kona mun hafa sést í bíl með tveimur karlmönnum og þremenninganna leitað. Portúgalska lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þetta en sagði upptökur úr mörgum öryggismyndavélum á svæðinu til rannsóknar. Enginn hafi verið handtekinn vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×