Erlent

Danskir stjórnmálamenn á sögulegum tímamótum

Sighvatur Jónsson skrifar

Á kjördegi Íslendinga standa danskir stjórnmálamenn á sögulegum tímamótum. Fækkað hefur í meirihluta forsætisráðherrans eftir að þingmenn hafa gengið til liðs við nýjan flokk. Haldi óróinn áfram gæti þurft að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Fyrrverandi þingmaður róttækra vinstrimanna, Naser Khader, hefur heldur betur hrist uppí dönskum stjórnmálum síðustu daga. Hann segist vera þreyttur á því að stjórnmál snúist um átök og andstæður, og því hafi hann stofnaði ásamt fleirum flokkinn Ny Alliance.

Nýja Bandalagið er miðjuflokkur sem á að brúa bilið milli vinstri og hægri blokkanna. Hægriflokkur forsætisráðherrans Venstre, varð fyrir áfalli þegar þingmaðurinn Leif Mikkelsen kvaddi flokkinn eftir fjörutíu ár, til að ganga til liðs við Nýja bandalagið.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem gerð var fyrir Jyllands Posten, fengi Nýja bandalagið 12% í kosningum nú. Flokkurinn myndi þannig fella núverandi ríkisstjórn, og vera í lykilstöðu varðandi myndun nýs meirihluta.

Fjölmiðlar velta upp þeim möguleika að meirihluti Venstre, Íhaldsflokksins og Danska þjóðarflokksins falli fyrr. Til þess þurfa aðeins tveir þingmenn til viðbótar að ganga til liðs við Nýja bandalagið. Verði það raunin verður forsætisráðherrann að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Minnihlutastjórnir eru þó vel þekkt fyrirbæri í dönskum stjórnmálum. Í ljósi sögunnar er það í raun mjög óvenjulegt að að meirihlutastjórn sé við völd í Danmörku, eins og verið hefur undanfarin sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×