Erlent

Aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna segir af sér

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Paul McNulty aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Paul McNulty aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. MYND/Getty Images

Paul McNulty aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna hefur ákveðið að segja af sér. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna skýrði frá því að hann hefði lagt inn afsagnarbeiðni sína. McNulty flæktist í umdeildar uppsagnir nokkurra ríkissaksóknara sem Bush stjórnin fyrirskipaði. Hann var lykilmaður í viðræðum og fundum vegna uppstokkunarinnar.

Talið er að breytingarnar séu af pólitískum toga, en dómsmálaráðuneytið segir ríkissaksóknarana ekki hafa sinn störfum sínum sem skildi.

McNulty mun hætta í sumar þegar eftirmaður hans hefur verið samþykktur af öldungadeild þingsins. Hann hefur starfað hjá ráðuneytinu í eitt og hálft ár.

McNulty sagði í febrúar að í það minnsta einn þeirra sem sagt var upp hefði misst starfið vegna pólitískra áhrifa.

Þrýstingur eykst nú á Alberto Gonzales dómsmálaráðherra að segja af sér vegna málsins.

Tveir starfsmenn ráðuneytisins hafa sagt af sér á síðustu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×