Erlent

Wolfowitz segir af sér

Wolfowitz sagði af sér í dag.
Wolfowitz sagði af sér í dag. Mynd: AP

Paul W. Wolfowitz lét í dag undan miklum þrýstingi stjórnar og starfsmanna Alþjóðabankans og sagði af sér sem forstjóri bankans.

Með því kom hann í veg fyrir að bankastjórnin lýsti formlega yfir vantrausti á hann, í kjölfar uppljóstrana um að hann hefði skipað undirmönnum sínum að veita kærustu sinni verulega kauphækkun.

Heimildarmenn dagblaðsins Washington Post sögðu eftir afsögnina að Wolfowitz hefði tekist í samningaviðræðum við stjórn bankans að fá hana til að gefa út yfirlýsingu um að hann hafi talið sig hafa haft hagsmuni bankans að leiðarljósi. Með slíka yfirlýsingu í farteskinu gæti hann yfirgefið bankann með reisn. Yfirlýsingin var gefin út nú undir kvöldið.

Kærasta Wolfowitz vann hjá Alþjóðabankanum þegar hann var gerður að forstjóra fyrir tilstilli Bandaríkjastjórnar. Til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur var hún flutt til í starfi en fékk í leiðinni verulega kauphækkun.

Wolfowitz, sem hefur notið stuðnings Bush Bandaríkjaforseta, er sakaður um að hafa skipað starfsmönnum sínum að halda kauphækkuninni leyndri. Eftir að upp komst um málið sagði hann að kauphækkun kærustunnar hefði verið sanngjarnar bætur vegna tilflutningsins í starfi.

Wolfowitz er þekktur hægrimaður og er talinn einn af hugmyndafræðilegum upphafsmönnum stríðsins í Írak. Hann var settur forstjóri Alþjóðabankans, sem hefur aðsetur í Washington, fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×