Faðir Madeleine litlu sem rænt var í Portúgal í byrjun mánaðarins er nú kominn til Bretlands í stutta heimsókn. Gerry McCann mun nota ferðina til að hitta skipuleggjendur sjóðs vegna leitarinnar að stúlkunni. Þá mun hann undirbúa frekari dvöl í Portúgal og sækja myndir og myndbönd af Maddie til nota fyrir herferðina.
Sky fréttastofan hefur eftir frænda stúlkunnar að Gerry muni fara á torg heimabæjarins Rothley í Leichestershire, en þar hafa þúsundir manna komið fyrir gulum borðum.
Nú eru 18 dagar síðan Maddie hvarf og ekkert hefur spurst til hennar síðan. Þetta er fyrsta ferð Gerrys til Bretlands frá hvarfi hennar.
Á hádegi í dag verður mínútu þögn meðal almennings í Portúgal til að minnast stúlkunnar. Nunnur í norðurhluta landsins hafa einnig sent tölvupósta til fólks víða um landið þar sem þær hvetja fólk til að taka þátt í bænastund í fyrramálið.
Foreldrar Madeleine segjast vera vissir um að hún sé enn á lífi og að þau muni vera áfram í Algarve til að skipuleggja alþjóðlega herferð til að fá stúlkuna aftur.
Á vefsíðunni findmadeleine er meðal annars dagbók fjölskyldunnar. Um 100 milljón heimsóknir hafa verið á síðuna.
Erlent