Erlent

Draugabílstjóri í Danmörku mætir fyrir rétt

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
E45 á Jótlandi
E45 á Jótlandi MYND/Nyhedsavisen

Fertugur karlmaður sem varð fjórum að bana á E45 þjóðveginum í Danmörku síðastliðinn sunnudag, mætir fyrir rétt í dag. Maðurinn var undir áhrifum áfengis þegar hann keyrði yfir á öfugan vegarhelming við Litlubeltisbrúnna á Jótlandi. Hann keyrði um 18 km leið á móti umferðinni áður en hann hafnaði framan á fólksbíl.

Ökumenn sem keyra á móti umferð með þessum hætti eru víða erlendis nefndir draugabílstjórar.

Í bílnum voru tvö pör frá Fjóni sem voru látin þegar sjúkralið kom á vettvang. Annað þeirra skilur eftir sig tvö börn, þriggja og sex ára. Hin konan í bílnum var barnshafandi og komin langt á leið.

Lögreglu var tilkynnt um hinn vítaverða akstur mannsins af ökumanni sem keyrði samsíða honum á réttum vegarhelmingi. Tilkynningin kom of seint til að lögregla næði að koma í veg fyrir áreksturinn. Þá hafði hann þegar keyrt fram hjá Kolding, Vejle og Fredericia.

Draugabílstjórinn slasaðist við áreksturinn og liggur á sjúkrahúsi. Hann mun þó mæta við réttinn í dag þar sem hann verður ákærður fyrir manndráp af gáleysi og að stofna lífi annarra í hættu. Hámarksdómur fyrir brotin er átta ára fangelsi.

Í tveimur svipuðum málum frá árinu 2005 fengu ölvaðir ökumenn 18 mánaða fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×