Erlent

Íranar vanvirða tímamörk SÞ

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Íranskar konur mótmæla afskiptum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Íranskar konur mótmæla afskiptum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. MYND/AFP

Íranar hafa ekki einungis hunsað tímamörk öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að stoppa tilraunir með auðgun úrans. Þeir hafa aukið við kjarnorkuáætlun sína og ganga þannig þvert gegn ályktunum öryggisráðsins.

Upplýsingar þess efnis er að finna í skýrslu frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni sem fréttastofa Reuters hefur undir höndum. Íranar hafi komið upp sérstökum tækjum í þeim tilgangi að auðga úran. Í skýrslunni segir jafnframt að yfirvöld í Teheran aftri eftirlitsmönnum að fylgjast með kjarnorkustarfseminni.

Hunsi Íranar 60 daga tímamörk sem öryggisráðið gaf þann 24. mars síðastliðnum mun það leiða af sér harðari refsingar fyrir landið. Tímamörkin voru sett þegar í ljós kom að Íranar höfðu ekki fylgt tilmælum ráðsins.

Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að helstu ríki heims myndu krefjast þess að Íran hætti auðgun úrans. Þau myndu einnig neita málamiðlunartillögu kjarnorkueftirlitsaðila SÞ.

Talsmaður Hvíta hússins sagði að með þessu væru Íranar að einangra þjóð sína enn frekar.

Vesturlönd óttast að Íranir smíði kjarnorkusprengju í skjóli kjarnorkuáætlunarinnar, sem Íranar segja vera í friðsamlegum tilgangi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×