Erlent

Bandaríkin vilja refsiaðgerðir gegn Íran

Jónas Haraldsson skrifar
Starfsmenn að störfum í Nataz kjarnorkustöð Írana.
Starfsmenn að störfum í Nataz kjarnorkustöð Írana. MYND/AFP
Bandaríkin ætla sér að fara fram á frekari refsiaðgerðir gegn Íran fyrir að hafa ekki farið að fyrirmælum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Yfirlýsing þess efnis var birtu stuttu eftir að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hafði gefið út skýrslu þar sem fram kom að Íranar hefðu ekki enn hætt auðgun úrans og ef eitthvað væru þeir að auka við getu sína. Skýrslan var birt í gær og var gerð að beiðni öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Mohamed ElBaradei, aðalritari Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, mun síðar í dag ávarpa sameiginlega ráðstefnu Bandaríkjanna og Rússlands um útbreiðslu kjarnavopna. Talið er að ElBaradei muni hvetja alþjóðasamfélagið til þess að koma í veg fyrir að Íranar geti auðgað úran í nægjanlegu magni til þess að framleiða kjarorkusprengju. Hann hefur áður lagt til að Íran verði leyft að auðga úran í litlu magni en sú skoðun gengur þvert á vilja Bandaríkjanna og helstu ríkja Evrópu.

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Zalmay Khalilzad, sagði eftir að skýrslan kom út, að nú væri tími til þess að huga að frekari aðgerðum gegn Íran og beita landið enn frekari og annars konar þrýstingi. Bretar bentu hins vegar aðeins á að ef viðræður ættu að fara fram þyrftu Íranar að fara eftir tilmælum öryggisráðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×