Erlent

Bretland: Þrír grunaðir hryðjuverkamenn strjúka

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Ibrahim Adam, Lamine Adam og Cerie Bullivant.
Ibrahim Adam, Lamine Adam og Cerie Bullivant.

Breska lögreglan tilkynnti í gærkvöldi að þrír grunaðir hryðjuverkamenn sem hafa verið í nokkurs konar stofufangelsi hafi strokið. Ákvörðun Scotland Yard um að létta nafnleynd yfir mönnunum þykir benda til hversu alvarlegum augum hvarf mannanna er litið.

Tveir þeirra eru bræður manns sem var fangelsaður í síðasta mánuði fyrir að skipuleggja sprengjuárásir í Bretlandi.

Yfirvöld höfðu tryggar heimildir fyrir því að þremenningarnir væru að skipuleggja hóp til að ferðast til útlanda í tengslum við hryðjuverkaárásir.

Alsírsku bræðurnir Lamine og Ibrahim Adam, og Cerie Bullivant komu fyrst við sögu lögreglu vegna tengsla við hóp sem skipulagði að drepa fjölda Breta en voru fangelsaðir fyrr í þessum mánuði.

Einn mannanna er talinn vera breskur ríkisborgari. Annar keyrði neðanjarðarlestir en var meinað að sinna starfinu eftir að vera settur undir eftirlitið. Þeir bjuggu allir í London.

Bræðurnir tilkynntu sig ekki til yfirvalda á mánudagskvöld eins og þeim var ætlað og þriðji aðilinn lét ekki í sér heyra hjá lögreglu á þriðjudag.

Mennirnir voru settir í stofufangelsið á síðasta ári, bræðurnir í febrúar en Bullivant í júlí.

Lögin um stofufangelsi fyrir grunaða hryðjuverkamenn tóku gildi árið 2005. Þau tóku við af umdeildum lögum sem sett voru eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þau heimiluðu yfirvöldum að halda útlendingum án tímatakmarkana væri minnsti grunur um tengsl við hryðjuverk. Árið 2004 voru þau dæmd ólögleg.

Nýju lögin eru einnig umdeild en sex aðilar hafa horfið undir þeim frá því þau tóku gildi. Aðrir sex voru undanþegnir lögunum fyrir dómi þar sem þau þykja stangast á við mannréttindasáttmála Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×