Erlent

Pyntingahandbók al-Kæda

Óli Tynes skrifar

Hryðjuverkasamtökin al-Kæda nota meðal annars logsuðutæki, straujárn, rafmagnsbora og kjötkróka við að pynta fanga sína. Bandarískir hermenn fundu fyrir nokkru handbók al-Kæda um pyntingar. Handbókin er með teiknuðum skýringarmyndum. Bókin fannst þegar hermennirnir réðust inn í hús í Bagdad til þess að frelsa fimm Íraka sem þar voru í haldi. Þeir höfðu allir verið pyntaðir.

Handbók þessi er skelfileg lesning. Á hinum teiknuðu myndum má meðal annars sjá hvernig glóðheitum straujárnum er beitt á ýmsa líkamshluta. Það er sýnt hvernig rafmagnsborum er þrusað í gegnum handarbök, lófa og ristar. Það er sýnt hvernig logsuðutæki eru notuð til þess að svíða skinn af fólki. Það er sýnt hvernig augu eru stungin úr fólki. Það er sýnt hvernig limir eru höggnir af.

Það eru sýndar allskyns aðferðir við að píska fólk. Hvernig hægt er að brjóta útlimi með því að hífa það upp á hurðir. Hvar er gott að koma fyrir rafskautum á líkamanum. Og þar frameftir götunum. Auk handbókarinnar fundu bandarísku hermennirnir pyntingaklefa og allskonar pyntingaáhöld, í fyrrnefndu húsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×