Erlent

Öryggisráðið myndar sérstakan dómstól í máli Hariri

Jónas Haraldsson skrifar
Frá jarðarför Hariri.
Frá jarðarför Hariri. MYND/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að mynda sérstakan dómstól til þess að dæma í máli þeirra sem myrtu fyrrum forsætisráðherra Líbanon.

Dómstóllinn er mikið deiluefni í Líbanon. Stjórnvöld þar í landi hafa nú til tíunda júní til þess að samþykkja hann. Ef það er ekki gert getur öryggisráðið stofsett sjálfstæðan dómstól sem myndi rannsaka málið. Nokkur lönd voru á móti því að setja upp dómstólinn og sögðu ástandið í landinu svo eldfimt að það væri betur látið ógert.

Rafik Hariri var myrtur í sprengjuárás þann 14. febrúar árið 2005. 22 til viðbótar létu lífið í henni. Fjórir líbanskir herforingjar, sem eru taldir styðja Sýrland, hafa verið í gæsluvarðhaldi í meira en ár vegna árásarinnar. Almennt er talið að Sýrland hafi komið nálægt morðinu á Hariri og þurftu fulltrúar þess að yfirgefa Líbanon eftir mikil mótmæli eftir morðið á Hariri.

Sýrland sagði um dómstólinn að hann stefndi sjálfstæði Líbanon í hættu og gæti aukið á óstöðugleika í landinu. Forsætisráðherra Líbanon, Fouad Siniora, tók stofnun dómstólsins hins vegar fagnandi. Hann sagði stofnun dómstólsins ekki sigur einnar fylkingar yfir annarri heldur sigur allra Líbana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×