Erlent

Flaug í 9 tíma með slasaða farþega

Óli Tynes skrifar
KLM þotan í Osaka.
KLM þotan í Osaka. MYND/AP

Japanska samgönguráðuneytið hefur fyrirskipað rannsókn á því af hverju breiðþotu hollenska flugfélagsins KLM var ekki snúið við eftir að níu farþegar slösuðust í mikilli ókyrrð. Fimm þeirra voru fluttir á sjúkrahús eftir að vélin lenti í Osaka.

Boeing 747 þotan var á leið frá Amsterdam til Japans. Tveim klukkustundum eftir flugtak lenti hún í svo mikilli ókyrrð að fólk og handfarangur þeyttist í allar áttir. Níu slösuðust, mismunandi alvarlega. Flugstjórinn ákvað samt að halda fluginu áfram.

Frá Amsterdam til Osaka er 11 klukkustunda flug. Það þýðir að flogið var með slasaða farþegana í níu klukkustundir áður en þeir komust undir læknishendur. Samgönguráðuneytið vill fá skýringu á því af hverju vélinni var ekki snúið til Amsterdam aftur, þar sem þangað var ekki nema tveggja klukkustunda flug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×