Erlent

Ítalskir fangar vilja dauðadóma

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Getty Images

Hundruðir fanga sem sitja lífstíðardóma í ítölskum fangelsum hafa farið fram á það við stjórnvöld að þau taki aftur upp dauðadóma. Bréf fanganna þess efnis var sent forsetanum Giorgio Napolitano og birt í dagblaðinu La Republica. Næstum 1.300 fangar með lífstíðardóma sitja nú í ítölskum fangelsum. Rúmlega 200 þeirra hafa setið inni í meira en tvo áratugi.

Ítölsk stjórnvöld hafa lagst gegn dauðadómum og lögðu nýlega til við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að þau leggðu drög að því að bann verði lagt við þeim.

Fyrrum mafíósinn Carmelo Musumeci, sem hefur verið í fangelsi í 17 ár, skrifaði bréfið fyrir hönd fanganna 310 sem skrifuðu undir það.

Haft er eftir Musumeci á fréttavef BBC að hann sé þreyttur á því að deyja pínulítið á hverjum degi. Við viljum deyja bara einu sinni, sagði hann og; „við erum að biðja um að lífstíðardómnum verði breytt í dauðadóm."

Ítalir afnámu dauðadóminn eftir seinni heimsstyrjöldina. Samkvæmt núgildandi lögum geta lífstíðarfangar öðlast rétt til að fá stutt leyfi frá fangelsinu eftir tíu ára setu, og möguleika á skilorðsbundinni lausn eftir 26 ára fangelsisvist.

Maria Lusia Boccia hjá kommúnistaumbótaflokknum hefur gert drög að lögum sem afnema lífstíðardóma í landinu og setja 30 ára þak á alla fangelsisdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×