Erlent

Átökin í Líbanon: Hræðilegt ástand í flóttamannabúðum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Mikla reykbólstra lagði upp frá flóttamannabúðunum.
Mikla reykbólstra lagði upp frá flóttamannabúðunum. MYND/AFP
Mannúðarsamtök segja ástandið í palestínsku flóttamannabúðunum Nahr al-Bared í Líbanon vera hræðilegt. Ekkert lát er á átökum meðlima hryðjuverkasamtakanna Fatah al-Islam og líbanskra hermanna sem staðið hafa í 13 daga. Sameinuðu þjóðirnar segja 31 þúsund manns vera innilokaða í búðunum, en 25 þúsund hafi flúið. Mannúðarsamtök segja ástandið hræðilegt. Um 80 manns hafa látið lífið í átökunum. Líbanskir hermenn beittu fyrir sig miklu stórskotaliði þegar þeir réðust á víghreiður samtakanna í búðunum í dag. Þetta er mesta stórskotaárás sem gerð hefur verið í bardögunum sem nú hafa staðið í þrettán daga. Fallbyssusprengjur og vélbyssuskot heyrðust þar sem skriðdrekar söfnuðust saman fyrir utan Nahr al-Bared búðirnar. Þykkan reyk lagði frá búðunum sem eru í norðurhluta Líbanon. Líbanskur hermaður og í það minnsta átta herskáir vígamenn hafa látið lífið í átökunum í dag. Stjórnvöld í Líbanon segja að Fatah al-Islam séu á mála hjá Sýrlendingum, sem hafa neitað því. Það er hernum fjötur um fót að enn er í gildi samningur sem var gerður árið 1969 þar sem hernum er bannað að fara inn í flóttamannabúðir Palestínumanna í landinu. Þar eru um 400 þúsund flóttamenn í tólf búðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×