Erlent

Venesúelska sjónvarpsstöðin sendir út á YouTube

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Þúsundir mótmælenda flykktust út á götur Caracas vegna lokunar stöðvarinnnar.
Þúsundir mótmælenda flykktust út á götur Caracas vegna lokunar stöðvarinnnar. MYND/AFP
Stjórnendur venesúelsku sjónvarpsstöðvarinnar RCTV senda nú fréttaþátt sinn "El Observador" út á YouTube. Þannig fundu þeir leið til að koma efni fréttamanna til hluta áhorfenda sinna, þrátt fyrir að hafa misst útsendingarleyfið í landinu. Hugo Chavez forseti neitaði stöðinni um endurnýjun leyfisins sem rann út á sunnudag. Fjöldamótmæli hafa verið haldin á götum Venesúela vegna málsins.

Ástæðuna sagði Chavez lögbrot og að stöðin hefði tekið þátt í valdaránstilraun gegn sér. Önnur venesúelsk sjónvarpsstöð, Globovision, hefur fengið hótanir um lokun á svipuðum forsendum frá forsetanum.

RCTV sjónvarpsstöðin hafði verið starfrækt í 53 ár. Hún var ein fárra einkarekinna sjónvarpsstöðva sem gagnrýndi forsetann og ríkisstjórnina opinberlega. Ríkisrekin sjónvarpsstöð fékk útsendingarleyfi RCTV.

Þátturinn "El Observador" er þriggja tíma langur. Auk þess að vera aðgengilegur á YouTube er hann einnig sýndur á miðnætti á kólumbísku sjónvarpsstöðinni Caracol, sem var í samstarfi við RCTV. Útsending hans þar gæti náð til um 800 þúsund íbúa í Venesúela. Það er þó aðeins brot af þeim áhorfendafjölda sem stöðin hafði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×