Erlent

Kínverjar gera lítið úr auknum hernaðarumsvifum

Jónas Haraldsson skrifar
Kínverjar freistuðu þess að róa Bandaríkjamenn á herráðstefnu sem fram fer í Singapore í dag. Þar sagði talsmaður kínverska hersins að stækkun hans væri eingöngu í varnartilgangi og að þeir ætluðu sér ekki að ráðast gegn neinu landi. Á meðal hlustenda var Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa haft af því áhyggjur að Kína ætli sér að bola þeim frá áhrifasvæðum sínum í Asíu. Þau hafa jafnframt gagnrýnt Kína fyrir að halda hernaðarútgjöldum sínum leyndum. Útgjöld til hersins jukust um tæp 18 prósent á þessu ári. Talsmaður kínverska hersins sagði þó að þeim fjármunum yrði ekki eingöngu eytt í ný vopn og tæki heldur væru laun hermanna hækkuð.

Robert Gates sagði á sömu ráðstefnu í morgun að vantraust gæti leitt til erfiðleika sem hægt væri að komast hjá. Þá lagði hann áherslu á að ríkin tvö ættu margt sameiginlegt, til dæmis í vörnum gegn hryðjuverkum og hagsmunum í orkumálum. Þá sagði hann nauðsynlegt að koma á betra samskiptakerfi milli herja landanna tveggja til þess að koma í veg fyrir hvers konar misskilning þeirra á milli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×