Erlent

Gabb í beinni útsendingu

Guðjón Helgason skrifar

Umdeildur hollenskur raunveruleikaþáttur þar sem keppt var um nýra úr dauðvona konu reyndist gabb eftir allt saman. Þetta kom fram á lokamínútum þáttarins í hollensku sjónvarpi í gærkvöldi.

Þegar þátturinn var kynntur fyrir skömmu var greint frá því að dauðvona kona, Lísa að nafni, ætlaði að gefa úr sér nýra. Hún ætlaði sér að velja milli þriggja sjúklinga sem þurftu á nýju nýra að halda. Lísa sjálf var sögð með heilaæxli og að hún ætti stutt eftir. Þátturinn vakti mikið umtal víða um heim löngu áður en hann fór í loftið og fordæmdu hollensk stjórnvöld athæfið.

Það var svo í gærkvöldi sem hann var sýndur og biðu fjölmargir hollendingar spenntir við sjónvarpsskjáinn. Á lokamínútum þáttarins kom í ljós að um gabb var að ræða. Lísa héti í raun Leonie, leikkona við hestaheilsu sem ætlaði ekki að gefa nýra. Þeir sem kepptu um það voru þó raunverulegir sjúklingar sem vissu þó hvernig allt var í pottinn búið og því með í leiksýningunni.

Það er framleiðslufyrirtækið Endemol, sem gert hefur marga vinsæla raunveruleikaþætti víða um heim, sem stóð að þættinum í gær. Framleiðendur segja að með uppátækinu hafi þeir viljað vekja athygli því hversu líffæragjöfum í Hollandi hefði fækkað á síðustu árum. Fyrir vikið hefðu biðlistar lengst og hollensk stjórnvöld setið aðgerðarlaus hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×