Erlent

Tugþúsundir mótmæla í Pakistan

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. MYND/AFP

Tugir þúsunda söfnuðust saman til þess að sýna brottreknum hæstaréttadómara stuðning í Pakistan í dag. Mótmælin fóru fram í Abbotabad sem er 50 kílómetra frá höfuðborginni Islamabad. Dómarinn, Ifhikhar Mohammed Chaudry, var rekinn úr starfi af Pervez Musharraf, forseta landsins, fyrir að hafa gerst brotlegur í starfi. Musharraf sakar andstæðinga sína um að snúa brottrekstrinum upp í pólitískt hitamál.

Chaudry var rekinn úr embætti þann 9. mars síðastliðinn og hefur síðan mótmælt því harkalega. Fjölmargir landsmenn hafa stutt hann í baráttu sinni og í dag er talið að um 50 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Þau hafa veikt stöðu Musharraf töluvert en talið er að hann ætli sér að reyna að framlengja dvöl sína í embætti og hafi rekið Chaudry til þess að geta breytt lögum án vandræða.

Þrátt fyrir að hafa tapað stuðningi innanlands hafa Bandaríkin, hans helsti alþjóðlegi styrktaraðili, staðið með honum en þau telja hann vera lykilmann í baráttunni við hryðjuverk og talibana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×