Erlent

Innanríkisráðherra Írans hvetur til tímabundinna hjónabanda

Innanríkisráðherra Írans, Mostafa Pour-Mohammadi, er byrjaður á því að hvetja til tímabundinna hjónabanda. Hann ætlar þeim að leysa ýmis félagsleg vandamál í þjóðfélaginu. Samkvæmt reglum sjía greinar íslam getur fólk gift sig tímabundið, allt frá klukkutíma upp í eina öld. Karlmaður getur gift sig tímabundið eins oft og hann vill. Þrátt fyrir þetta er almennt álitið að tímabundin hjónabönd séu skálkaskjól fyrir vændi.

Það var fyrir 15 árum sem fyrst var byrjað að hvetja til bímabundinna hjónabanda. Þáverandi forseti Íran, Hashemi Rafsanjani, sagði að þannig gætu karlar og konur svalað löngunum sínum. Hann sagði ennfremur að fólk þyrfti ekki að hitta prest því nóg væri ef bæði færu með ákveðið vers úr kóraninum og að því loknu væru þau gift. Í dag gera þetta helst ungar konur sem vilja ferðast með kærustum sínum og fá að gista í sama herbergi og þeir.

Þrátt fyrir þetta hafa tímabundin hjónabönd valdið ýmsum vandamálum. Þau hafa meðal annars leitt til þess að fjöldinn allur af börnum er óskilgetinn. Karlmenn hafa þá barnað konur og þar sem hjónabandið var tímabundið, neitað að gangast við börnunum.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig megi takast á við aukin þorsta ungs fólks í frjálsræði í tilhugalífi. Ein er að þau giftist fyrr og önnur stakk upp á því að sett yrði upp sérstök ríkismistöð sem myndi hjálpa ungu fólki að finna sér maka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×