Erlent

Tiltekt í Rostock eftir mótmæli

Yfirvöld í hafnarborginni Rostock í Þýskalandi hófu í morgun hreinsunarstarf eftir átök lögreglu og mótmælenda þar í borg í gærdag og kvöld. Fundur leiðtoga helstu iðnríkja heims verður haldinn nærri borginni síðar í vikunni og vildu mótmælendur koma þeim málum sem á þeim brenna á framfæri fyrir fundinn.

Talið er að um þrjátíu þúsund mótmælendur hafi komið til borgarinnar í gær - flestir til að mótmæla með friðsamlegum hætti. Stór hópur greip þó til ofbeldis en mættu þá þrettán þúsund lögreglumönnum gráum fyrir járnum.

Þrátt fyrir hlífar og varnarbúnað særðust rúmlega fjögur hundruð lögreglumenn í átökunum, þar á meðal um þrjátíu alvarlega. Ekki er vitað hve margir mótmælendur hlutu sár. Nærri hundrað og þrjátíu úr þeirra hópi voru handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×