Erlent

Reyndi að stökkva upp í bílinn til páfa

Óli Tynes skrifar

Maður nokkur reyndi að stökkva upp í bílinn hjá Benedikt páfa fyrir stundu. Hann var kominn alveg að bílnum þegar öryggisverðir réðust á hann og sneru hann niður. Ekki er enn vitað hver maðurinn er eða hvað honum gekk til.

Maðurinn er sagður vera milli tvítugs og þrítugs. Hann var íklæddur bleikum stuttermabol og með hafnaboltahúfu á höfðinu. Sjónarvottar segja að hann hafi stokkið yfir varnargirðingu og hlaupið á eftir bíl páfa. Öryggisverðir stukku þá á hann.

Benedikt virðist ekki hafa tekið eftir þessu. Bíll hans hélt áfram akstrinum eins og ekkert hefði í skorist, og páfi hélt áfram að veifa til mannfjöldans.

Páfi keyrir um í sérhönnuðum bíl, svokölluðum Popemobil. Hann er meðal annars með stóru skotheldu glerhúsi, svo páfi geti staðið uppréttur og veifað til mannfjöldans. Glerhúsið var þó ekki á bílnum að þessu sinnni.

Þessi bíll var sérhannaður fyrir páfann eftir að reynt var að myrða Jóhannes Pál á Péturstorginu á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×