Erlent

Sýknuð af morðinu á bankastjóra Guðs

Óli Tynes skrifar
Roberto Calvi.
Roberto Calvi.

Dómstóll í Róm sýknaði í dag fjóra karlmenn og  eina konu sem voru sökuð um að hafa myrt ítalska bankamanninn Roberto Calvi fyrir 25 árum. Calvi sem var kallaður bankastjóri Guðs vegna tengsla sinna við páfagarð, fannst hengdur undir Blackfriars brúnni í hjarta Lundúna árið 1982. Vasar hans voru úttroðnir af múrsteinum og peningaseðlum.

Roberto Calvi var bankastjóri og eigandi Ambrosiano bankans sem var að verða gjaldþrota um þetta leyti í einu mesta svikamáli í sögu Ítalíu. Auk tengsla sinna við páfagarð var talið að Calvi hefði haft náin tengsl við mafíuna og meðal annars þvættað fyrir hana peninga.

Calvi hvarf í nokkrar vikur meðan málið var í hámæli og fannst svo hengdur undir Blackfriars brúnni. Í fyrstu var það úrskurðað sjálfsmorð, en málið var tekið upp aftur. Árið 2005 voru svo gefnar út ákærur í Róm. Allir karlmennirnir tilheyra mafíunni og konan var kærasta eins þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×