Erlent

Óttast að Sýrlendingar stefni á stríð

Óli Tynes skrifar
Ísraelskir skriðdrekar í viðbragðsstöðu.
Ísraelskir skriðdrekar í viðbragðsstöðu.

Forsætisráðherra Ísraels reyndi í dag að róa þjóðina vegna þráláts orðróms um að Sýrlendingar séu að búa sig undir stríð til þess að endurheimta Golan hæðirnar. Ehud Olmert sagði að Ísrael vildi frið við Sýrland og að forðast yrði allan misskilning sem gæti leitt til átaka. Ísraelskir fjölmiðlar hafa skýrt frá því að Sýrlendingar séu að fjölga eldflaugaskotpöllum og hermönnum við landamæri ríkjanna.

Yfirmaður leyniþjónustu ísraelska hersins segir að Sýrlendingar séu vissulega að auka herstyrk sinn við landamærin. Það þýði ekki að þeir verði tilbúnir til þess að gera árás á morgun. Ísraelar hertóku Golan hæðirnar í sex daga stríðinu fyrir 40 árum. Sýrlendingar höfðu fram til þess haft þar mikið stórskotalið sem hélt uppi stöðugri skothríð inn í Ísrael.

Umtalsverð byggð var einnig á hæðunum. Þar búa nú um 18000 gyðingar og 17000 drúsar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×