Erlent

Kosovo tilbúið að lýsa yfir sjálfstæði

Jónas Haraldsson skrifar
Á þessari mynd sést staður við útjaðar Kosovo þar sem Serbar eru grunaðir um að hafa grafið fórnarlömb fjöldamorða.
Á þessari mynd sést staður við útjaðar Kosovo þar sem Serbar eru grunaðir um að hafa grafið fórnarlömb fjöldamorða. MYND/AFP
Stjórnvöld í Kosovo eru reiðubúin til þess að lýsa einhliða yfir sjálfstæði héraðsins. Á sama tíma hvetja þau Vesturlönd til þess að boða til atkvæðagreiðslu um málið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þrátt fyrir að Rússar eigi að öllum líkindum eftir beita neitunarvaldi gegn slíkri stuðningsyfirlýsingu.

Leiðtogi albanskra Kosovoa, Veton Surroi, sagði í dag að héraðið myndi lýsa yfir sjálfstæði með stuðningi Vesturlanda ef sú tillaga sem nú er fyrir öryggisráðinu verður felld. Hann fer með mál Kosovo á alþjóðavettvangi. Surroi sagði líklegast að Rússar myndu beita neitunarvaldi og ef það gerðist bæri stjórnvöldum í Kosovo skylda til þess að fara eftir vilja þegna sinna, sem væri sjálfstæði og samvinna með alþjóðasamfélaginu. Hann sagði þetta eftir fundi með George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, en þeir funduðu í Prag á þriðjudaginn var.

Rússar vilja að Serbar og Kosovoar leysi málin sín á milli og segja deilu þeirra vera innanríkismál sem Sameinuðu þjóðirnar eigi ekkert með að hlutast til í. Martti Ahtisaari, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, hefur lagt til að héraðið verði sjálfstjórnarsvæði innan Serbíu með eigin utanríkisstefnu en það hafa Rússar ekki viljað samþykkja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×