Erlent

Gekk grátandi úr dómssal

Guðjón Helgason skrifar

Paris Hilton gekk grátandi úr dómssal í Los Angeles í gær eftir að dómari úrskurðaði að hún skyldi send aftur í fangelsi. Lögreglustjóri segir Hilton eiga við geðræn vandamál að stríða og því ekki rétt að senda hana aftur í steininn.

Heimspressan fylgdi Hilton hvert fótmál í gær líkt og aðra daga. Þessi umdeildi erfingi hótelauðæfa Hilton-fjölskyldunnar er vel þekktur fyrir kynlífsmyndband, góða mætingu í samkvæmi fræga og ríka fólksins, létt raul á hljómdisk og einstaka þátttöku í sjónvarpþáttum.

Það var sjöunda september í fyrra sem hún var tekin fyrir ölvunarakstur og játaði hún á sig brotið. Var þriggja ára dómur hennar skilorðsbundinn. Skömmu síðar var hún gripin á bíl sínum tvívegis og bar fyrir sig að hún vissi ekki að hún hefði verið svipt ökuskírteininu tímabundið. Taldist hún hafa rofið skilorðið og því dæmd til afplánunar í fjörutíu og fimm daga.

Mikið var gert úr væntanlegri fangavist sinni sem hófst svo á mánudaginn. Það var svo á fimmtudaginn sem lögreglustjóri ákvað að hún skildi látin laus úr fangelsi og henni gert að afplána í stofufangelsi af heilsufarsástæðum.

Það líkaði dómaranum ekki og lét sækja Hilton á sinn fund. Fjölmiðlamenn biðu spenntir eftir því á Hollywood-hæðum í gær að Hilton yrði dregin í járnum út.

Að sögn vitna var Hilton skjálfandi á beinunum þegar í dómssal var komið og brotnaði saman þegar dómarinn úrskuraðið að hún skyldi aftur send í fangelsi. Síðan var hún leidd grátandi út í lögreglubíl. Hilton var síðan látin gangast undir læknisrannsókn og athugun hjá geðlækni svo hægt yrði að ákvarða í hvaða fangelsi hún yrði látin afplána.

Lögreglustjóri var ósáttur við ákvörðun dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×