Erlent

Norðurlöndin þurfa að svara "kínversku ógninni"

Lars Oxelheim, prófessor við Háskólann í Lundi í Svíþjóð
Lars Oxelheim, prófessor við Háskólann í Lundi í Svíþjóð MYND/Fredrik Eriksson

Norðurlöndin ættu að styrka samstarf sitt og takast á við áskoranir hnattvæðingar. Þetta segir Lars Oxelheim, prófessor við viðskiptaskóla Háskólans í Lundi í Svíþjóð, í grein sem hann skrifar í Svenska Dagbladet í dag. Oxelheim er einnig formaður sænska tengslanetsins um Evrópurannsóknir. Hann er auk þess mjög tengdur Fudan háskólanum í Shanghai.

Samkvæmt Oxelheim telja fjórir af hverjum fimm forstjórum fyrirtækja í heiminum að líklegt sé að næsta fjárfesting fyrirtækja þeirra verði í Kína. Samkvæmt tillögum Oxelheim ættu Norðurlöndin að "selja" sig sem hluthafa í svæði með um 25 milljónum íbúa og þar sem aðstæður til vaxtar eru bestar í heimi. Hann leggur einnig fram hugmyndir að aðgerðum sem gætu haft áhrif.

Til að mynda uppbygging háskóla fyrir afburðanemendur til að tryggja sameiginlega þekkingaruppbyggingu. Afnám kerfishindrana sem enn eru til staðar á norrænum fjármálamarkaði. Uppbygging norræns áhættufjármagnsmarkaðar og að stuðlað verði að frjálsri för fyrirtækja með því að setja samræmdar norrænar reglur um rekstur fyrirtækja.

"Það er mikilvægt fyrir framtíðarvaxtarmöguleika og velferð að nýta tækifæri sem bjóðast nú til að kynna Norðurlöndin og getu þeirra til að mæta áskorunum hnattvæðingarinnar. Ef farið yrði að þessum tillögum værum við að sýna að ríkisstjórnir landa okkar taka áskoranir um að taka þátt í þróuninni alvarlega, annars eigum við á hættu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni," segir Oxelheim.

Dagana 18. og 19. júní verður sumarfundur norrænu forsætisráðherranna haldinn í Finnlandi. Eitt af þeim mikilvægu málum sem þeir munu ræða er einmitt hvernig Norðurlöndin geti tekið á áskorunum hnattvæðingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×