Erlent

Þjóðstjórn leyst upp

Guðjón Helgason skrifar
Bardagamenn á Gaza í dag.
Bardagamenn á Gaza í dag. MYND/AP

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, ætlar að leysa upp þriggja mánaða þjóðstjórn Palestínumanna og lýsa yfir neyðarástandi á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu. Blóðugir bardagar hafa geisað á Gaza síðustu daga og allt stefnir í að Hamas-samtökin nái þar yfirráðum.

Heimildarmenn nátengdir Abbas greindu frá því nú skömmu fyrir fréttir að stjórnin yrði leyst upp og neyðarástandi lýst yfir á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu. Búist er við formlegri yfirlýsingu í kvöld.

Hart hefur verið barist á Gaza síðustu daga og í dag féllu minnst tuttugu Palestínumenn í átökum - og það þrátt fyrir að Abbas og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra og forvígismaður Hamas, hefðu hvatt liðsmenn sína í gær til að leggja niður vopn.

Herskáir Hamas-liðar lögðu í dag undir sig byggingu öryggissveita Fatah í Gaza-borg, höfuðstöðvar leyniþjónustunnar og nær allt landsvæði sem tilheyrir Rafah.

Stjórnmálaskýrendur segja stöðu Abbas erfiða. Hann ráði enn á Vesturbakkanum en það fjari undan valdi hans á Gaza. Erfitt verði fyrir hann að ná tökum á ástandinu þó lýst hafi verið yfir neyðarástandi. Stjórnmálaskýrendur segja hættu á að Palestínumenn klofni í fylkingar Fatah á Vesturbakkanum og Hamas á Gaza-svæðinu. Arababandalagið segir að bardögum veðri að linna, þeir skemmi fyrir málstað Palestínumanna.

Yves Daccord, upplýsingarstjóri Alþjóða Rauða krossins, er staddur hér á landi. Hann hefur áhyggjur af ástandinu. Hann segir upplýsignar berast frá fulltrúum Rauða krossins um mikið mannfall. Barist sé inni á sjúkrahúsum sem valdi miklum áhyggjum. Mikilvægt sé að deilendur fylgi lögum og virði rétt almennra borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×