Innlent

Finnur og Þórólfur á aðalfund Samvinnutrygginga

MYND/Stöð 2
Finnur Ingólfsson, stjórnarformaður Icelandair Group og fyrrverandi iðnaðarráðherra, og Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, voru meðal þeirra sem mættu á aðalfund hjá Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum í húsakynnum Mjólkursamsölunnar klukkan tvö.

Komið hefur í ljós að þetta gamla fyrirtæki á yfir 30 milljarða króna og samkvæmt samþykktum eignarhaldsfélagsins eru eigendur þessara fjármuna annars vegar þeir sem voru með einhverjar tryggingar hjá Samvinnutryggingum g.t. árin 1987 og 1988 og hins vegar þeir sem voru með lögboðna brunatryggingu húsa árin 1992 og 1993. Alls eru þetta yfir 30 þúsund manns.

Hins vegar voru þeir ekki boðaðir aðalfundinn í dag heldur 24 manna framkvæmdaráð. Þórólfur er skráður stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins en hvorki hann né Finnur Ingólfsson vildu veita fréttastofu Stöðvar 2 viðtal fyrir fundinn.

Sagðist Þórólfur myndu tjá sig eftir samkomuna en í raun er um að ræða nokkra fundi sem ekki er búist við að ljúki fyrr en undir kvöld. Reiknað er með að Samvinnutryggingum verði slitið og nýtt hlutafélag stofnað í staðinn. Verður þá eignarhlutur hvers og eins umreiknaður til hlutafjár í nýja félaginu sem fólk getur þá átt áfram í því félagi eða selt á frjálsum markaði.

Fram hefur komið í fréttum Stöðvar 2 að sjóðum félagsins hefur verið beitt í fjárfestingarskyni, meðal annars til kaupa S-hópsins á Búnaðarbankanum og þriðjungshlut í Icelandair nýverið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×