Erlent

Segir ástandið í Afganistan verra nú en í fyrra

Guðjón Helgason skrifar

Minnst sex börn týndu lífi í sjálfsvígssprengjuárás á bílalest Atlantshafsbandlagsins í Afganistan í morgun. Upplýsingastjóri Alþjóða Rauða krossins segir stríð geisa í landinu og ástandið verra nú en í fyrra.

Árásin á bílalestina var gerð nærri Tarin Kowt, héraðshöfuðborginni í Uruzgan í Afganistan. Lögregla segir mann hafa ekið bíl hlöðnum sprengi efni að bílalestinni og sprengt sig svo í loft upp. Einn bíll NATO eyðilagðist og minnst einn hermaður týndi lífi. Börnin sem týndu lífi voru að leik nærri árásarstaðnum.

Á sama tíma kom til átaka milli Talíbana og herliðs undir forystu Bandaríkjamanna í Helmand-héraði, Zabul og Kandahar og var mannfall nokkurt meðal andspyrnumanna. Talið er að um 2000 Afganar, bæði andspyrnumenn og almennir borgarar, hafi fallið í átökum í landinu það sem af er þessu ári.

Yves Daccord, upplýsingastjóri Alþjóða Rauða krossins, segir ljóst að stríð geisi í landinu. Ástandið sé nú verra en í fyrra og var verra þá en nokkrum árum áður. Verst sé ástandið fyrir óbreytta borgara - sértaklega í suðurhluta landsins - og það valdi Alþjóða Rauða krossnum áhyggjum. Barist sé í stríðinu af hörku - en ekki sé hægt að tala um annað en stríð í Afganistan. Erfitt sé að taka á ástandinu. Almennum borgurum líði illa - hafi ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu auk þess sem fjölmargir hafi orðið að yfirgefa heimili sín.

Daccord bendir á að stríð hafi geisað í Afganistan í 20 ár. Það sé alþjóðasamfélagið í samvinnu við Afgana sjálfa sem verði að taka á málinu. Afganar þurfi að vera í forystu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×