Erlent

Sarkozy hlýtur umboð til breytinga

Jónas Haraldsson skrifar
Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. MYND/AFP

Flokkur Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, UMP, vann sigur í þingkosningum sem fóru fram þar í landi í gær. Flokknum hafði verið spáð allt að 80 prósent sæta á franska þinginu en hlaut ekki nema tæp 60 prósent sæta, eða 354 af 577 þingsætum. Fréttaskýrendur telja að ástæðan fyrir fylgistapinu hafi verið umdeild hækkun á söluskatti.

Þá höfnuðu kjósendur einum af ráðherrum Sarkozy, Alain Juppe. Hann átti að verða Orku- og umhverfisráðherra. Fyrir kosningarnar sagði forsætisráðherrann Francois Fillon að þeir ráðherrar sem ekki kæmust inn á þing þyrftu að segja af sér. Juppe var eitt sinn forsætisráðherra og tilkynnti eftir tap sitt að hann myndi hætta afskiptum af stjórnmálum.

Meirihlutinn dugir Sarkozy engu að síður til þess að koma í gegn þeim endurbótum sem hann hefur lofað. Hann ætlar að rýmka vinnulöggjöfina, fækka opinberum starfsmönnum og lækka skatta.

Hagvöxtur í Frakklandi hefur verið minni en annars staðar á Evru svæðinu og Sarkozy hefur einsett sér að bæta úr því. Þá ætlar hann að draga úr atvinnuleysi en það er talið vera að minnsta kosti rúmlega átta prósent um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×