Erlent

Brotið gegn trú- og samviskufrelsi í Noregi

Guðjón Helgason skrifar

Norska ríkið braut á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun með kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum. Þetta var niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasborg á dögunum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn trú- og samviskufrelsi kærenda sem voru fimm foreldrar í félagi húmanista í Noregi.

Kristinfræðikennsla hefði verið þess eðlis að verulega hallaði á önnur trúarbrögð en Kristni og illfært væri fyrir foreldra að nýta sér rétt til undanþágu frá kennslunni því erfitt væri að fylgjast með námsefninu.

Í fréttatilkynningu frá Siðmennt á Íslandi segir að dómurinn renni stoðum undir gagnrýni félagsins hér á landi. Íslensk stjórnvöld eru hvött til að kynna sér dóminn og tryggja hlutleysi í íslenskum skólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×